Sendibréfin

Refaskyttan_20150301_0246

Reykjavík, 4. maí 2015

Kæri lesandi

Guðmundur Einarsson, langafi minn, skildi eftir sig merka sögu en æviminningar hans voru skrásettar af Theodóri Gunnlaugssyni frá Bjarmalandi  í bókinni Nú brosir nóttin.

Þessi bók er skrásett eftir sendibréfum sem Guðmundur sendi Theodóri.  Theodór Gunnlaugsson skrifaði fyrsta bréfið til Guðmundar árið 1944 eftir að hafa heyrt sögur af honum í útvarpinu en Jóhannes Davíðsson frá Hjarðardal sagði sögur af Guðmundi í Kvöldvökum útvarpsins og birti þessar sögur einnig í Lesbók Morgunblaðsins og í Tímanum. Gaman er að lesa þessar sögur og margt sem hann Guðmundur lenti í.

Hann Guðmundur var hörkukall sem þurfti að hafa mikið fyrir lífinu en kvartaði aldrei, og fór sínar leiðir. Hann var mjög ratvís og unni því að vera úti í náttúrunni.

Ég bjó tímabundið á Húsavík og var þá komin á staðinn sem bréfin hans langafa eru geymd, eða á Safnahúsinu á Húsavík, sem er hluti af Menningarmiðstöð Þingeyinga. Pabbi vissi að bréfin væru þar og lét mig vita af því. Ég náði að skanna einn búnkann af þremur en þetta er um 1.100 blaðsíður.

Eitt leiddi af öðru og frænka mín hún Rúna, Guðrún dóttir Kristjáns á Brekku sonar Guðmundar, kom með fullann kassa til mín af bréfum, sem varðveiðst höfðu heima á Brekku og þar með bréfin frá Theodóri. Þannig að nú er ég með bréfin frá þeim báðum og mun birta þau hér á síðunni. Þessi bréf eru undirstaðan af æviminningunum sem Theodór skrásetti.

Ég hlakka til að fara með ykkur í þetta ferðalag sem þessi sendibréf eiga eftir að koma okkur í.  Þau segja okkur sögur þessara manna, en það var mjög mikill kærleikur á milli þeirra, sem ég fann vel að hafði skilað sér einnig til barna Theodórs, og barnabarna, en ég hitti Gunnlaug, Halldóru og Guðný Önnu og hef heyrt í Sólveigu barnabarni Theodórs, og öll tala þau um Guðmund af mikilli væntumþykju.  Tíðarandinn bréfanna kemur örugglega fram en bréfin eru skrifuð frá 1944 til 1964. Vitnað verður í atburði sem nefndir verða í bréfunum og birtar geinar fá þeim ef eitthvað finnst.

Ef þú átt sendibréf í fórum þínum frá Guðmundi eða getur sagt sögur af honum, væri gaman að heyra frá þér.  Hægt er að hafa samband við mig í síma 894-5204 eða senda á netfangið rebbarnir@gmail.com og svo máttu gjarnan senda mér sendibréf.

Með virðingu og vinsemd,
Sandra Björgvinsdóttir
-afi minn var Gunnar Guðmundsson

Skilaboð